Saga bókasafnsins

Upphaf og forsaga 

Bókasafn Hafnarfjarðar tók til starfa 18. október 1922. Aðalhvatamaður að stofnun safnsins var Gunnlaugur Kristmundsson kennari og sandgræðslustjóri. Framtak hans varð til þess að bæjarstjórn samþykkti 8. mars 1921 að stofna skyldi bókasafn til frjálsra afnota fyrir bæjarbúa. Áður en Bókasafn Hafnarfjarðar tók til starfa höfðu verið gerðar tilraunir með lestrarfélög í bænum. Þau komu að talsverðu gagni en stofnað var til þeirra af vanefnum og bókakostur fremur lítill. 
Lestrarfélagið Framför starfaði á árunum 1907-17. Ekkert lestrarfélag var starfandi þegar Gunnlaugur Kristmundsson tók að sér að beita sér fyrir stofnun almenningsbókasafns.

Húsnæðismál 

Í fyrstu fékk bókasafnið til afnota lítið herbergi í suðurenda gamla barnaskólans við Suðurgötu. Árið 1928 flutti safnið í allgóða kennslustofu í barnaskólanum enda var skólinn þá fluttur í nýja húsið við Lækinn. Safnið var í gamla barnaskólanum til ársins 1937. Árið eftir fluttist það í rúmgott húsnæði á efri hæð austurálmu nýja Flensborgarskólans á Hamrinum. 
31. maí 1958 var nýja bókhlaðan að Mjósundi 12 vígð við hátíðlega athöfn. Arkitekt var Sigurður J. Ólafsson bæjarverkfræðingur. Fyrstu árin notaði bókasafnið einungis neðri hæðina en Iðnskólinn í Hafnarfirði leigði efri hæðina. Árið 1972 fékk bókasafnið til afnota allt húsið sem er um 536 fermetrar. Safnið var til húsa að Mjósundi 12 í tæp 44 ár. 
Þann 20. apríl 2002 opnaði bókasafnið í nýju húsnæði að Strandgötu 1, sem er tæplega þrisvar sinnum stærra en bókhlaðan í Mjósundinu.

Heimild: Stefán Júlíusson. „Bókasafnið í Hafnarfirði, fimmtíu ára“. Bæklingur útg. 1972.

Forstöðumenn Bókasafns Hafnarfjarðar: 

Anna Guðmundsdóttir 1955-1970 
Þorbjörg Björnsdóttir 1971-1992 
Anna Sigríður Einarsdóttir 1992-2015
Óskar Guðjónsson 2015-2019 
Sigrún Guðnadóttir frá 2019

Umsjónarmenn Friðriksdeildar: 
Páll Kr. Pálsson 1959-1987
Valdemar Pálsson 2000-2017
Súsanna Flygenring 2017-

Ítarefni

  • Anna Guðmundsdóttir 
    Samantekt um Önnu Guðmundsdóttur, fyrsta forstöðumann Bókasafns Hafnarfjarðar. Einnig er saga Bókasafns Hafnarfjarðar rakin.
    Unnið af Guðmundi B. Guðmundssyni í mars 2013.
  • Tónlist í Hafnarfirði
    Árið 2012 var 90 ára afmæli Bókasafns Hafnarfjarðar, 50 ára ártíð Friðriks Bjarnasonar og 100 ára minning Páls Kr. Pálssonar. Af því tilefni var sett upp sýning á bókasafninu auk þess sem Njáll Sigurðsson tók saman texta og úr varð veigamikill og fróðlegur bæklingur.

Bókasafn Hafnarfjarðar | Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5690 | Netfang bokasafn@hafnarfjordur.is