Dagskrá janúarmánaðar á Bókasafni Hafnarfjarðar

15.1.2021

Januar-2021-TILBUID Dagskrá janúarmánaðar fer rólega í gang, en við erum svo sannarlega hér og getum ekki beðið eftir að komast aftur í fluggírinn!

Við hefjum nokkra nýja dagskráliði á þessu ári.

 • Mánaðarlega bíður Bókasafn Hafnarfjarðar upp á Smáræðið: upplestur og fjölskyldustund, þar sem höfundur heimsækir okkur og verður með okkur í léttu spjalli. Dagskráin verður miðuð inn á yngri og eldri lesendur til skiptis og farið um víðan völl í íslenskri útgáfu og bókmenntum.
  Fyrstur til að heimsækja okkur, alla leiðina frá Bretlandseyjum í gegnum veraldarvefinn, er Guðni Líndal Benediktsson sem les upp úr og spjallar við okkur um nýútgefna bók sína, Bráðum áðan. Viðburðurinn verður í beinni á barnadeild safnins og einnig verður hægt að fylgjast með honum á netinu í streymi á Facebook. Allir eru hvattir til að taka þátt í spjalli og spurningum - og svo auðvitað að lesa bókina!
 • Bókasafn Hafnarfjarðar stendur fyrir mánaðarlegum örfyrirlestrum til að auðga andann og fræða um allt milli himins og jarðar, merkilegt og ómerkilegt, furðulegt og fyndið, eitthvað sem allir vilja vita og það sem fólk vissi ekki að það vildi vita. Hver fyrirlestur er 15-20 mínútur og á sér stað á fyrstu hæð safnsins.

  Fyrsti fyrirlesturinn verður í höndum Júlíu Sifjar, bloggara og grænkerakokks sem heldur ásamt systur sinni út samfélasmiðlarásinni Veganistur.

  Það eru ansi margir sem hafa planað lengi vel að borða meira grænt og minna kjöt, en oft er erfitt að koma sér af stað. Alls konar spes dót og nöfn sem enginn skilur, - og svo virkar þetta allt svo flókið! Í tilefni af Veganúar ætlar Júlía Sif að fræða okkur um hvernig má auðveldlega má töfra fram auðvelda veganrétti og stuðla þannig að auknu heilbrigði og náttúruvernd - svo eru þeir líka bara svo góðir!

  Athugið að fjöldi þátttakenda stýrist af viðmiðum Almannavarna að hverju sinni.
  Grímuskylda er á bókasafninu.

Einnig stefnum við á að halda bæði tónlistarinnslög og smiðjur í hverjum mánuði.

 • Myndlistasmiðja - Bestiary : 21. janúar kl. 17:00-19:00
  Hönnuðurinn og myndlistamaðurinn Otilia Martin leiðir smiðju fyrir ungt listafólk í smiðju sinni, Bestiary. Smiðjan snýr að sköpun furðuvera þar sem Otilia Martin leiðir þátttakendur í leitun að sínum innri furðudýragarði.

  Furðudýragarðurinn sækir innblástur sinn þvert á miðla, í landakort miðalda og nútímamenningu, og mun hver og einn þátttakandi ráða tilfinningu og formi síns dýragarðs og alls sem í honum býr, bæði myndrænt og svo tilfinninga- og upplifunarlega.Tilgangur smiðjunnar er að gefa ungum listamönnum færi á að þróa með sér skilning á sjónrænum hugrenningartengslum milli hugmynda og ritaðs máls og auka með því sköpunargleði, ásamt því að gera ímyndunaraflinu frjálsan tauminn.

  Smiðjan er ætluð ungu listafólki á milli 16-20 ára, og verður kennd á ensku. Skráningar er þörf, og má skrá sig með því að senda tölvupóst á bokasafn@hafnarfjordur.is . Takmörkuð sæti eru í boði 

Sögustundir, handverkshópur og Klub Kobiet verða á sínum stað eftir miðjan mánuðinn.
Frekari upplýsingar um hvern dagskrárlið má finna sem viðburði á Facebooksíðu bókasafnsins .

Gleðilegt ár!


Bókasafn Hafnarfjarðar | Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5690 | Netfang bokasafn@hafnarfjordur.is