Fastir liðir á Bókasafni Hafnarfjarðar í október

30.9.2020

Oktober2020Nú erum við komin vel í gang og októbermánuður verður sérdeilis spennandi. Nýir dagskrárliðir munu hefja göngu sína auk gamalla og góðra klúbba, smiðja, námskeiða og skemmtisamkomna. Auðvitað er strangt eftirlit og áhersla á sóttvarnir og takmarkaður fjöldi á viðburði í lokuðum rýmum, svo við hvetjum fólk til að skrá sig á þá viðburði sem þar þykir þörf, muna eftir grímunum og huga vel að sjálfu sér og umhverfi sínu.

Við hefjum mánuðinn á nýjum viðburði, Snjallspjalli, en þá koma snillingarnir úr Intrix í heimsókn og aðstoða með snjalltæki, tölvur, forrit, vefpóst eða hvað annað stafrænt sem fólk er að furða sig á. Þann þriðja október koma svo álfaprinsessan Lísbet og orkakempan Títanía í heimsókn, en þær standa fyrir lestrarþjálfun fyrir yngstu bekki grunnskóla. Þær eiga heima í skóginum við Hvaleyrarvatn en ætla að heimsækja okkur á laugardögum til að hlusta á sögur. Öllum hugrökkum krökkum er velkomið að mæta í fylgd með fullorðnum og lesa fyrir ævintýraverurnar okkar.

Foreldramorgnar verða á sínum stað annan hvern mánudag, en ungbarnajóga og heimildamyndasýningar eru á dagskránni þennan mánuðinn. Stólajógað, fyrir alla þá sem vilja fríska upp á líkama og sál, verður svo í hádeginu alla miðvikudaga en Kristín Harðar leiðir hópinn í gegnum stuttar og styrkjandi teygjur sem henta öllum óháð atgervi og aldri. Sem áður verður handverkshópurinn annan hvern miðvikudag og stýrir Aðalbjörg Sigþórsdóttir hópnum af alkunnri snilld.

Bókmenntaklúbburinn hefur svo göngu sína þann 14. október og mun Hjalti Snær Ægisson, bókmenntafræðingur, leiða hópinn sem áður. Þetta árið verður Hjalti líka með hlaðvarpsþætti um bækurnar með viðtölum við innvinklaða sem koma út fyrir hverja samkomu. Bæklinga um lesefni vetrarins má nálgast á bókasafninu.

Veggurinn, The Wall, er fyrsta innslag Vinylbíóseríu Bókasafns Hafnarfjarðar. Stjörnuferðarsamvinnuverkefni Daft Punk og Leji Matsumoto, Inter5tella 5555: The 5tory of the 5ecret 5tar 5ystem, verður sýnd í Friðriksdeild Bókasafns Hafnarfjarðar. Kvikmyndin er teiknimynd í japönskum stíl (Anime) og byggir á plötunni Discovery.

Rýmið er opið og getur fólk tekið sér nokkrar mínútur til að sjá sitt uppáhaldslag eða notið myndarinnar í heild.

Við minnum fólk á að skrá sig, og svo vera meðvituð um mögulegar fjöldatakmarkanir.

Hlökkum til að sjá ykkur!


Bókasafn Hafnarfjarðar | Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5690 | Netfang bokasafn@hafnarfjordur.is