Fataskiptamarkaður á Bókasafninu!

1.9.2020

Bh-vidburdir-fataskiptimarkadur-2020Fatamarkaður verður haldinn í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar þann 26. september næstkomandi, og er öllum velkomið að koma með fatnað og velja sér nýjan. Markmiðið er að stuðla að endurnýtingu og upphefja skiptihagkerfi hjá bæjarbúum.

Í þetta skiptið einbeitum við okkur að útivistarfatnaði og skólafatnaði fyrir börn. Því ekki að hjálpa bæði jörðinni og hvort öðru, koma með það sem er orðið of lítið og skipta í eitthvað stærra? Útivistarfatnaður er sérlega vel þeginn, og eins hlutir sem nýtast skólabörnum í leik og starfi. 

Auðvitað er allur fatnaður samt velkomin, og við erum spennt að fá hana Önnu Helgu aftur til liðs við okkur og leiða verkefnið. Það þarf ekki að koma með föt til að geta fengið föt, það sem mestu skiptir er að sem flest komist í nýtingu og allir njóti góðs af.

Vegna samkomutakmarkana munum við telja inn og út úr salnum að hverju sinni og fólk beðið um að sótthreinsa hendur við innkomu og hvatt til að hafa með sér grímur.

Sjáumst á safninu!


Bókasafn Hafnarfjarðar | Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5690 | Netfang bokasafn@hafnarfjordur.is