Fjölbreytt dagskrá á Bókasafni Hafnarfjarðar í vetur

7.9.2018

2017-bokasafn_hafnarfjardar_minni-mynd_1536325774024Nú fer haustdagskrá Bókasafnsins í Hafnarfirði að hefjast en boðið verður upp á ýmislegt skemmtilegt bæði fyrir börn og fullorðna. Hér  má sjá brot af því sem boðið verður upp á.

Bókmenntaklúbburinn verður á sínum stað undir stjórn Hjalta Snæs Ægissonar bókmenntafræðings þar sem fjöldi áhugaverðra bóka verða lesnar og ræddar. Þemað að þessu sinni er öldrun í bókmenntum. Bókmenntaklúbburinn hittist annan miðvikudag í mánuði kl. 19:00 og verður fyrsti fundurinn þann 10. október þar sem bókin Að endingu eftir Julian Barnes verður rædd.

Handavinnuhópur bókasafnsins verður með örlítið breyttu sniði þennan veturinn en hópurinn mun koma saman annan hvern fimmtudag kl. 17:00 – 19:00. Handavinnuhópurinn hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum og boðið er upp á aðstoð og kennslu í grunn atriðum. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á handavinnu að mæta og eiga notalega stund saman. Fyrsti fundur vetrarins verður fimmtudaginn 20. september.

Foreldramorgnarnir verða einnig á sínum stað annan hvern þriðjudag frá kl. 10:00-12:00. Foreldramorgnar eru hugsaðir sem notaleg samverustund og vettvangur fyrir foreldra til að koma saman með börn sín og spjalla yfir kaffi og meðlæti. Reglulega er boðið upp á ýmsar fróðlegar kynningar um efni sem tengist barneignum og uppeldi. Fyrsti foreldramorguninn verður þann 11. september þar sem farið verður yfir dagskrá haustsins.

Sögustundir á barna- og unglingadeild verða eins og áður á miðvikudögum kl. 10:30. Þær eru einkum ætlaðar leikskólahópum á aldrinum 3 - 6 ára. Í sögustundum eru lesnar skemmtilegar sögur, farið með vísur, lesin ljóð, sungið og haft gaman. Einnig er hægt óska eftir sögustund á öðrum tímum.

Bókabíó er nýjung sem verður í boði fyrir börn og unglinga einu sinni í mánuði þar sem sýndar verða kvikmyndir byggðar á barna- og unglingabókum. Fyrsta sýningin verður fimmtudaginn 27. september kl. 16:30 en þá verður myndin Emil í Kattholti sýnd sem byggð er á samnefndri bók Astrid Lindgren.

Spilað, litað og lesið er einnig nýjung sem boðið verður upp á en einn mánudag í mánuði drögum við fram spil, liti og litabækur sem safngestir geta gripið í á milli kl. 16-19.

Bókasafnið minnir á að bókasafnsskírteini eru ókeypis fyrir börn yngri en 18 ára, eldri borgara og öryrkja. Fyrir aðra er árgjaldið 1.900 kr.

Viðburðir og hópastarf bókasafnsins er opið öllum og aðgangur er ókeypis. Við vonumst til þess að sjá sem flesta í vetur.


Bókasafn Hafnarfjarðar | Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5690 | Netfang bokasafn@hafnarfjordur.is