Samstarfssöfnin

Bókasafn Hafnarfjarðar, Bókasafn Garðabæjar (+ útibú á Álftanesi) og Bókasafn Kópavogs (+ útibú í Lindasafni) 

Eitt árgjald = fimm bókasöfn 

Bókasafn Hafnarfjarðar er í samstarfi við bókasöfnin í Garðabæ og Kópavogi. Samstarfið er á þá leið að hafi lánþegi gilt skírteini í einu safnanna getur hann nýtt sér þjónustu þeirra allra. Útlánagjöld, sektir og önnur gjöld miðast við það safn sem notað er hverju sinni. Söfnin eru samtals 5, þar sem Bókasafn Kópavogs hefur útibú í Lindasafni og Bókasafn Garðabæjar er með útibú á Álftanesi. 

Frá og með 1. febrúar 2019 mega lánþegar þessara safna skila bókum og öðrum gögnum sem þeir hafa í láni á hverju þessara samstarfssafna sem er.

Samstarfssamningur Bókasafns Garðabæjar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Bókasafns Kópavogs

Haustið 2017 endurnýjuðu Bókasafn Garðabæjar, Bókasafn Hafnarfjarðar og Bókasafn Kópavogs samstarfssamning sinn til næstu ára, en samstarfið hófst upphaflega árið 2005. Forstöðumenn safnanna undirrituðu samninginn á sínum tíma, en í honum felst að lánþegar safnanna mega nýta skírteini sín hjá báðum hinum samstarfssöfnunum. Þetta eru fimm starfsstöðvar í allt - ein í Hafnarfirði og tvær bæði í Kópavogi og Garðabæ. „Því hafa lánþegar aðgang að söfnum sem dreifast á stórt svæði og samanlögðum safnkosti allra bæjarfélaganna, en greiða árgjaldið bara á einum stað,“ segja forstöðumennirnir Lísa Z. Valdimarsdóttir í Kópavogi, Margrét Sigurgeirsdóttir í Garðabæ og Óskar Guðjónsson í Hafnarfirði. 

Skil á gögnum á hvaða samstarfssafni sem er

Í byrjun þessa árs tóku forstöðumenn safnanna ákvörðun um að auka samstarfið enn frekar með því að bjóða lánþegum að skila gögnum sem þeir eru með í láni á hvaða samstarfssafni sem er. Þetta þýðir að lánþegi sem fær gögn lánuð í einhverju samstarfssafnanna getur valið um það hvort hann skilar þeim á Bókasafninu í Hafnarfirði, Bókasafninu í Garðabæ eða Bókasafninu í Kópavogi. Um er að ræða tilraunaverkefni til sex mánaða og hefst það um mánaðamótin janúar/febrúar. 

Bókasafn Garðabæjar

Bókasafn Kópavogs

Lindasafn


Bókasafn Hafnarfjarðar | Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5690 | Netfang bokasafn@hafnarfjordur.is