Tónlistardeild

Tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar er stærsta tónlistardeild í almenningsbókasafni á landinu. Þar eru lánaðar út hljóm- og geislaplötur í 14 daga í senn án endurgjalds. Einnig eru lánaðar út nótur og bækur um tónlist. 

 Allir velkomnir að grúska, hlusta og fá lánað!

Tónlistardeildin er enn ekki fullskráð í Gegni.
Símanúmer tónlistardeildar er 585 5685. 

Mikið úrval af gamalli og nýrri tónlist

Tónlistardeildin leitast við að hafa ávallt á boðstólum gott úrval af nýútkomnu tónlistarefni af ýmsu tagi.

 • Klassísk tónlist
 • Heimstónlist
 • Jazz
 • Blús
 • Popp
 • Rokk

Ekki bara diskar og plötur

Á tónlistardeildinni eru einnig: 

 • Tónlistartímarit
 • Nótur
 • Bækur um tónlist
 • Bækur um tónlistarmenn
 • Uppflettirit 

Saga tónlistardeildarinnar

Merkasta gjöf til Bókasafns Hafnarfjarðar er án efa bækur og munir hjónanna Guðlaugar Pétursdóttur og Friðriks Bjarnasonar tónskálds. Árið 1960 arfleiddu þau hjón Hafnarfjarðarbæ að miklum hluta eigna sinna og mæltu svo fyrir í erfðaskrá, að bækur og munir skyldu varðveittar í bókasafninu. Þetta eru um 2.000 bindi, mest bækur um tónlist, nótur og tónlistarblöð. Er safnið hið merkasta, sumt ófáanlegt annars staðar og í rauninni ómetanlegt.

Friðrik Bjarnason var alla tíð mikill notandi safnsins, vinur þess og velunnari. Hann mun hafa samið fyrstu bókaskrá safnsins sem prentuð var handa almenningi. Friðrik lést árið 1962 en frú Guðlaug árið 1966.

Komið hafði verið á fót vísi að tónlistardeild í safninu, áður en þau hjón gáfu bækur sínar þangað. Samkvæmt heimildum frá Stefáni Júlíussyni hafði Páll Kr. Pálsson organleikari vakið máls á því við bókavörð og stjórn safnsins haustið 1958, að koma upp í safninu deild, sem í væru keyptar merkar tónlistarbækur, nótur og rit um tónlist.

Nýlegar upplýsingar hafa hins vegar leitt það í ljós, að þau hjónin Friðrik og Guðlaug hafi átt fund með Önnu Guðmundsdóttur, þáverandi yfirbókaverði, árið 1958 og leitað ráða hjá henni um hvernig hægt væri að varðveita safn þeirra hjóna að þeim látnum. Anna Guðmundsdóttir kom þá með tillögu um að stofna tónlistardeild við bókasafnið þar sem tónlistarsafn þeirra yrði grunnurinn og leist þeim hjónum vel á þá hugmynd. Anna fékk síðan Pál Kr. Pálsson til þess að vinna að undirbúningi að stofnun deildarinnar. Bæjaryfirvöld samþykktu að veita kr. 10.000 sem stofnfé til tónlistardeildar á árinu 1959.

Það var nýju tónlistardeildinni mikill fengur að fá safn Friðriks Bjarnasonar árið 1960 og má segja, að upp frá því hafi deildin verið hin merkasta stofnun og alltaf að vaxa. Var henni til bráðabirgða komið fyrir í námsherbergi, en það húsnæði var frá upphafi allt of lítið. Sérstaklega varð þröngt um deildina, eftir að ákvörðun var tekin um að kaupa gamlar íslenskar hljómplötur, sem í næðist og merkar plötur aðrar með mismunandi tónlist. Starfsemi deildarinnar jókst enn að miklum mun þegar ákveðin voru útlán á hljómplötum í árslok 1966. Tónlistardeildin var nefnd Friðriksdeild, eftir að gjöf þeirra hjóna var afhent safninu. 

Heimildir:
- Stefán Júlíusson. "Bókasafnið í Hafnarfirði, fimmtíu ára". Bæklingur útg. 1972
 
- Guðmundur B. Guðumundsson, sonur Önnu Guðmundsdóttur, fyrrv. yfirbókavarðar

Tónlist í Hafnarfirði

Árið 2012 var 90 ára afmæli Bókasafns Hafnarfjarðar, 50 ára ártíð Friðriks Bjarnasonar og 100 ára minning Páls Kr. Pálssonar. Af því tilefni var sett upp sýning á bókasafninu auk þess sem Njáll Sigurðsson tók saman texta og úr varð veigamikill og fróðlegur bæklingur: 

Tenglar


Bókasafn Hafnarfjarðar | Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði
Sími 585-5690 | Netfang bokasafn@hafnarfjordur.is